154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:20]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í mínu máli hér áðan finnst mér koma til álita að skoða þann þátt sem lýtur að endurbótum á regluverkinu. Mér finnst það koma til álita. Jafnframt þarf auðvitað að leiða þessi ágreiningsmál til lykta fyrir dómstólum. Ég vil svo bara taka undir það sem hv. þingmaður segir um það að sveitarfélög nýti ekki að fullu sína lögbundnu tekjustofna, hver staða þeirra er þá gagnvart jöfnunarsjóði. Ég er sammála þeim útgangspunkti sem var í frumvarpinu eins og það lá fyrir til að byrja með. Það er auðvitað ekki bara sanngirnismál heldur líka mikilvægt fyrir fjölmenningarsamfélag í vaxandi mæli, þar sem við viljum halda stöðu íslenskunnar til haga, að Reykjavíkurborg fái framlög vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál. Ég tel það vera mikilvægt. Því er sérstaklega haldið til haga í frumvarpinu eins og það liggur fyrir þinginu. En dómurinn er auðvitað flókinn, mjög mörg álitamál þar, og það er mikilvægt eðli máls samkvæmt að Hæstiréttur ljúki umfjöllun um þau álitamál.